Langjökull

Langjökull (1355m er annar stærsti jökull landsins, u.þ.b. 950 km² og er í einungis um 30 mínútna ökufjarlægð frá Geysi. Mestur hluti jökulsins er í 1200-1300 m hæð yfir sjó. Hann hvílir á móbergsfjöllum, sem rísa hæst undir honum norðan- og sunnanverðum, þannig að miðhlutinn er nokkurs konar söðull. Jökullinn er tiltölulega lítið kannaður enn þá en Jöklarannsóknarfélagið á skála (1979) austan undir Fjallkirkju (1228m). Margir skriðjöklar ganga út frá jöklinum. Hinir stærstu eru sitt hvorum megin Hagafells. Norður- og Suðurjökull skríða niður að Hvítárvatni.

Hinn nyrðri kelfir í vatnið og oftast má sjá ísjaka á floti þar. Langjökull er tiltölulega greiður yfirferðar, þótt þar séu sprungin svæði eins og á hinum jöklunum.

Líklega hylur jökullinn tvö eldstöðvakerfi, norðaustantil og sunnan-suðvestntil.  Umhverfis jökulinn eru víða merki um ísaldareldvirkni, s.s. öll stapafjöllin umhverfis hann, öll með jökulhettu (Eiríksjökull, Hrútfell, Skriðufell, Geitlandsjökull og Þórisjökull), og nútíma- og jafnvel sögulegrar eldvirkni gíga við norðurjaðarinn, þaðan sem Hallmundarhraun rann.  Norðaustan Kráks á Sandi eru gígar gaus u.þ.b. 2 km löng sprunga og myndaði 35 ferkílómetra hraun auk 12 ferkílómetra hrauns sunnan hans (Strýtuhraun/Helluhraun).  Skammt frá Hafrafelli við Kaldadalsleið er gígur, sem myndaði Geitlandshraun (35 ferkílómetra).

Umhverfis Langjökul eru smájöklarnir Eiríksjökull, Þórisjökull (u.þ.b. 30 km²) Hrútafell (u.þ.b. 10 km²) og Ok. Það er áberandi, að lítið vatn streymir á yfirborði frá þessum stóra jökli. Mestur hluti leysingarvatns síast í gegnum gropin móbergslöginn undir honum og kemur fram m.a. í Þingvallavatni, Brúará, á Arnarvatnsheiði og jarðhitasvæðum í Borgarfirði, Reykjavík og nágrenni og á Geysissvæðinu. Boðið er uppá snjósleða- og snjóbílaferðir á Langjökul.

 
Upplýsingar fengnar á vef Nordic Atlantic Travel www.nat.is.