Velkomin á Hótel Geysi

Hótel Geysir opnaði 1. ágúst 2019. Nýbyggingin tengist núverandi þjónustu á svæðinu og mun gefa því heildstætt útlit. Áhersla er lögð á að byggingin sé hógvær í umhverfi sínu og endurspeglast það í formi hennar og landslagsmótun en byggingin er formuð þannig að hún skyggi sem minnst á náttúruperlur svæðisins. Byggingin er hæst þrjár hæðir auk kjallara og skiptist í þrjá hluta sem þjóna ólíkum tilgangi.

Í herbergjaálmunni eru 77 herbergi þar af 6 svítur. Öll herbergin eru með fallegu útsýni yfir sveitina. Herbergin eru óvenju rúmgóð miðað við hefðbundin hótelherbergi.

Standard herbergin eru 29 fermetrar, þau eru með baðherbergi með sturtu og útsýnisglugga. Deluxe herbergin eru með baðherbergi með baðkari og frönskum svölum og eru 35 fermetrar. Við bjóðum upp á fimm svítur sem eru 58 fermetrar með baði og sturtu, frönskum svölum og setustofu. Geysis svítan er 87 fermetrar með baði og sturtu, svölum og setustofu.

Hluti herbergjanna er með stórum útkragsglugga sem hægt er að tylla sér í og láta hugann reika en hin herbergin eru björt með stórum opnanlegum gluggaflötum og svölum. Aðal anddyri hótelsins og móttaka eru á 2. hæð með tvöfaldri lofthæð. Gluggafletir eru stórir og háir og ramma inn stórglæsilegt útsýni yfir Geysi og hverasvæðið.

Öll herbergin eru með kaffivél og kaffi frá Sjöstrand. Kaffið, sem er einstaklega bragðgott, er umhverfisvænt 100 prósent lífrænt kaffi í hylki sem búið til úr plöntutrefjum og því niðurbrjótanlegt í náttúrunni. Sjöstrand hefur hannað og þróað kaffivél í klassískri sænskri hönnun, úr ryðfríu stáli. Gæðin eru mikil og í fullu samræmi við okkar metnað þegar kemur að umhverfisvernd og sjálfbærni. Vélin ásamt náttúruvænum hylkjum skapa þessa hugsjón sem fyrirtækið byggir á.

Einnig bjóðum við upp á lífrænar baðvörur frá Sóley. Vörurnar frá Sóley eru framleiddar á Íslandi með fersku íslensku vatni, villtum íslenskum jurtum og vandlega völdum lífrænum ilmkjarna olíum. Sóley notar aðeins hráefni sem samþykkt eru af Ecocert.

Eitt það mikilvægasta við hótelgistingu er góður svefn og því kusum við Jensen rúmin í öll herbergin. Jensen rúmin eru gæðavottuð eftir alþjóðlegum stöðlum og bera einnig Svansmerkið, en strangar kröfur þess tryggja að Svansmerkt vara er betri fyrir umhverfið og heilsuna. Jensen hefur hlotið verðlaun frá norska hönnunarráðinu fyrir þægindi, framleiðslu og góða hönnun.

Sængurfötin er frá Geysi verslun og sængurnar eru sérvaldar ofnæmisprófaðar dúnsængur.

Við erum með hágæða LG sjónvörp með gervihnetti þar sem allir finna eitthvað við sitt hæfi. Hægt er að tengja sig í gegnum bluetooth við sjónvarpið og nota það sem góðan hátalara.

Öll herbergin eru reyk og vapelaus. Við bjóðum upp á þvottaþjónustu og vakningaþjónustu. Einnig er hægt að óska þess að vera látinn vita þegar norðurljósin koma og dansa á himnunum. Boðið er upp á herbergjaþjónustu frá Geysir veitingahúsi, fyrir þá sem vilja njóta herbergisins í botn með dásamlegum veitingum. Möguleiki er að panta vínflösku, íslensk blóm eða fallega blómavendi, sætan bakka eða aðrar veitingar upp á herbergið.

Hótel Geysir er staðsett í útivistarparadís þar sem úrvalið af afþreyingu er endalaust: sleðaferðir á Langjökli, heimsókn í Friðheima og Efstadal, ferðir á Hvítá, göngur í Haukadalsskógi, Fontana og Secret Lagoon, hestaleigur og Slakki svo að fátt eitt sé nefnt.