Velkomin á Hótel Geysi

Á Geysi er í byggingu hótel og veitingahús sem mun opna árið 2018

 Í herbergjaálmunni eru 77 herbergi þar af 6 svítur. Öll herbergin eru með fallegu útsýni yfir sveitina. Standard herbergin eru af tveimur gerðum og óvenju rúmgóð miðað við hefðbundin hótelherbergi. Hluti herbergjanna er með stórum útkragsglugga sem hægt er að tylla sér í og láta hugann reika en hin herbergin eru björt með stórum opnanlegum gluggaflötum og svölum. Aðal anddyri hótelsins og móttaka eru á 2. hæð með tvöfaldri lofthæð. Gluggafletir eru stórir og háir og ramma inn stórglæsilegt útsýni yfir Geysi og hverasvæðið. Veitingasalir eru staðsettir á 1. og 2. hæð byggingarinnar og umlykja útveggi gamla íþróttaskólans sem fær nú nýtt hlutverk. Möguleiki er að opna veitingasalina út í skjólgóðan hótelgarðinn á góðviðrisdögum. Frá 3. hæð er aðgengi út á þakverönd þar sem hægt er að njóta veitinga og útsýnis til allra átta. Landslagið á svæðinu verður áhugavert og fjölbreytt, bæði í landmótun og gróðurvali. Góðar göngutengingar eru til allra átta og hönnun lóðar býður uppá að vegfarendur staldri við á leið sinni um svæðið. Mótun landslags myndar notaleg útisvæði sem snúa vel við sól og nýtast vel til afslöppunar á góðviðrisdögum.