Hverasvæðið

Elstu sagnir um Geysissvæðið eru frá árinu 1294 þegar miklir jarðskjálftar gengu yfir Suðurland og miklar breytingar urðu á hverasvæðinu í Haukadal. Sagt var að þá hefðu “hverir miklir” komið upp, sem talið er að bendi til þess að þeir hafi farið að gjósa.

Næstu aldirnar eykst frægð svæðisins og þá einkum Geysis sjálfs sem var mikið undur, enda eru goshverir ekki þekktir í Evrópu utan Íslands. Næstu aldirnar jókst virkni hverasvæðisins í jarðskjálftum og einkum hinna stóru Suðurlandsskjálfta, sem koma á um 100 ára fresti. 

Jarðhitasvæðið sem kennt er við Geysi er háhitasvæði, en slík svæði eru tengd virkri eldvirkni innan eldgosabeltanna. Reyndar er Geysissvæðið eitt hið minnsta á landinu og þekur aðeins um 3 km2 á yfirborði. Það er á jaðri vestara gosbeltisins og ekki hefur gosið innan svæðisins síðustu 10.000 árin, ólíkt því sem er á flestum öðrum slíkum svæðum. Með rannsóknum á efnafræði hveravatnsins hefur verið reiknað út að hiti í jarðhitakerfinu á yfir 1 km dýpi, er um 240°C. 
 

Hverirnir við Geysi eru af ýmsum gerðum. Geysir og hverirnir vestan hans og sunnan eru vatnshverir, þ.e. frá þeim rennur heitt vatn komið af miklu dýpi. 
Hitastigið er allt að 100°C og því sjóða sumir hverirnir - ef suða verður neðan yfirborðs gjósa þeir. Frá hverum norðan við Geysi rennur ekki vatn, heldur kemur aðeins upp gufa og nefnast slíkir hverir gufuhverir. Við gufuaugun má sums staðar sjá litlar gular skellur sem eru brennisteinn. Syðst á svæðinu eru svonefndir Þykkvuhverir, sem eru leirhverir. Leirhverir eru raunar gufuhverir þar sem gufa er að sjóða gegnum yfirborðsvatn eða grunnvatn og geta þeir breyst í gufuhveri í þurrkatíð. Leirhverir eru oft um 70-80°C heitir, en geta verið ansi varasamir því holrúm geta myndast kringum þá. Goshverir eru einn flokkurinn enn, en slíkir hverir eru mjög sjaldgæfir og finnast t.d. ekki í Evrópu utan Íslands. Það er ástæðan fyrir því að öldum saman voru gjósandi hverir aðeins þekktir á Íslandi og komu ferðamenn víða að til þess eins að skoða þá. 

 

Goshverir gjósa vegna þess að vatnið sem rennur upp úr jörðinni nær suðumarki áður en það kemst til yfirborðs. Suðan verður til þess að vatnið breytist í gufu, sem þenst snöggt út og þeytir vatninu sem er ofar í rásinni langt í loft upp. Á um 23 m dýpi í Geysi er vatnið 120°C heitt. Það er þar í jafnvægi, því vatnið sem ofar er heldur suðunni niðri. Á um 16 m dýpi nær vatnið stundum að fara yfir suðumark og það sést sem ólga á yfirborði hversins. Ólgan getur vaxið svo mikið að vatnssúlan í efri hluta gosrásarinnar lyftist upp og þá verður eins konar keðjuverkun neðar í pípunni, við þrýstiléttinn sýður vatnið neðar og neðar og þeytir vatninu sem er efst í pípunni hátt í loft upp. Þegar vatninu efst í pípunni hefur verið þeytt í burt breytist gosið úr vatnsgosi í gufugos með viðeigandi hávaða og blæstri. Vatnsgosið stendur fáeinar mínútur en gufugosið allt að 10 mínútur eða lengur og deyr smám saman út. Þá hefur vatn soðið langt niður í bergið og tekur um 8-10 klst að fylla hverinn á ný. 

Í jarðskjálftunum 17. og 21. júní 2000 byrjaði Geysir aftur að gjósa. Hann hefur gosið nær daglega og stundum oft á dag, en hefur þó ekki náð fullri reisn. Gosin eru þannig að ólga byrjar í hvernum og hann byrjar stuttu síðar að skvetta vatni upp í 8-10 m hæð, en nær ekki að losa sig við nægilegt vatn til að suða nái niður gospípuna. Gosin enda því ekki í gufugosi heldur dettur suðan niður, aðallega vegna þess að vatnið sem þeytist upp í loftið kólnar og dettur aftur niður í hverinn og kælir vatnið sem þar er. Strokkur gýs á um 8 mínútna fresti og hefur haldið uppi frægð svæðisins frá árinu 1963, en þá var gospípa hans hreinsuð. Strokkur myndaðist í jarðskjálfta árið 1789 og var virkur fram til 1896 þegar aftur komu jarðskjálftar sem lokuðu fyrir vatnsrásir til hans. Áður en hverinn var hreinsaður voru um 2 m niður á vatnsborðið í pípunni. 

 

Aðrir goshverir eru Sóði, Smiður, Fata, Óþerrishola, Litili Geysir og Litli Strokkur. Þessir hverir gjósa ef sápa er sett í þá, en annars gjósa þeir yfirleitt ekki. Í jarðskjálftunum 17. og 21. júní 2000 varð mikil breyting á hverasvæðinu við Geysi. 

Þá fóru hverirnir Konungshver og Blesi að sjóða hressilega og náði suðan í Konungshver 0,5-1 m hæð og má því segja að hann hafi gosið. Óþerrishola og Fata fóru líka að gjósa og var ekki óvenjulegt að Fata gysi einu sinni á dag út árið 2000, en Óþerrishola nokkru sjaldnar. Aðrar breytingar á svæðinu voru að nokkrir nýir hverir komu upp og vatnsmagn í hverunum jókst. Greinilegastar breytingar urðu við Geysi sjálfan, en vatnsrennsli úr honum jókst úr 1.8 l/s (lítra á sekúndu) í um 3 l/s. Gosin í Geysi voru fyrr á öldum mikil undur og voru margar tilgátur um hvers vegna þau urðu. Fyrri hugmyndir voru að neðanjarðar væru stórar hvelfingar þar sem gufa safnaðist fyrir og gos urðu þegar hún slapp út. Þýskur efnafræðingur, Robert Bunsen að nafni, kom til Íslands árið 1846 og rannsakaði hverina. Hann var manna fyrstur til að átta sig á því að gosin urðu vegna þess að vatnið í gosrásinni yfirhitnaði og við það varð sprengisuða. 

 

Eitt af því sem gerir Geysisvæðið fallegt eru hveraútfellingarnar sem eru á svæðinu. Þær stafa af því að þegar hveravatnið rennur í rásum langt niðri í jörðinni leysir vatnið upp ýmis efni úr berginu sem það rennur um. Mest er magnið af kísli (SiO2) sem fellur út úr vatninu þegar það kólnar og myndar hverahrúður. Í gömlum fjöllum má sjá þessar fornu hverarásir sem hvítar æðar sem fléttast um bergið. Hverahrúðrið er viðkvæmt og þótt það myndist aftur þá er full ástæða til að ganga vel og snyrtilega um svæðið og láta hverahrúðrið í friði. 

Dr. Helgi Torfason, 

jarðfræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands.