Hálendið

Einn mikilvægasti hálendisvegurinn, Kjölur byrjar 10 km frá Geysir. Steinar, hrjóstugur gróður, auðn og endalaust ekkert en allt í einu birtast skærblá hálendisvötn, sýn inn í tignalega fjalladali og jökla. Þar er algjör ró og friður, vart er hægt að binda fegurðina í orð. 

Hveravellir eru einstök náttúruperla við þjóðbraut á miðju vesturhálendi Íslands milli Langjökuls og Hofsjökuls.  Hveravellir liggja við Kjalveg (númer F35) sem liggur þvert yfir miðhálendi Íslands frá Gullfossi á Suðurlandi til Blöndudals á Norðurlandi og er leiðin um 200 kílómetrar. Á sumrin er hægt að aka á flestum bílum yfir Kjöl. Ekki er þó hægt að mæla með leiðinni fyrir lága bíla. Yfir sumarið eru áætlunarferðir hópferðabíla yfir Kjalveg. Lagt er upp daglega bæði frá Reykjavík og Akureyri.

Á Hveravöllum er eitt af fegurri hverasvæðum jarðar með blásandi gufuhverum, bullandi leirhverum og formfögrum hverum með himinbláu sjóðheitu hveravatni. Einstakt er að skoða sig þar um, hvort heldur er vetur eða sumar.

Kjalhraun er gríðarmikil hraundyngja (10-12 rúmkílómetrar) skammt frá Hveravöllum og ná hraunin að hverasvæðinu. Í heild þekur hraunið um 180 ferkílómetra og hægt að velja fjölmargar stórbrotnar gönguleiðir, svo sem að gígnum sem er hringlaga og um 900 metrar í þvermál. Kjalhraun myndaðist í gríðarmiklu eldgosi fyrir um 8000 árum.

Á Hveravöllum er náttúruleg baðlaug sem tilvalið er að skella sér í eftir góða gönguferð um nágrennið. Hveravellir eru þannig staðsettir að velja má nýjar áhugaverðar gönguleiðir á hverjum degi, dögum saman. Fyrir utan Kjalhraunið má nefna gönguleiðir á Rjúpnafell, Kjalfell og Hrútfell. Einnig um Þjófadali og að Langjökli. Hægt er að panta leiðsögn jafnt á Hrútfell sem Langjökul fyrir þá sem áhuga hafa á gönguferð á jökli.

Landmannalaugar eru innan friðlands að Fjallabaki. Tignarleg litskrúðug fjöll, úfin hraun, mjúkur mosi. Þessar andstæður í náttúrunni eru meðal þess sem gerir laugarnar að fjölsóttasta ferðamannastaðnum inn á hálendi Íslands. 

Auk fegurðar og fjölbreytni í landslagi þá er það heita laugin sem laðar ferðafólk að. Til þess að komast inn á laugasvæðið verður að keyra yfir tvö grunn vöð en þeir sem eru gangandi geta farið yfir göngubrú. Hægt er að gista í skála eða á tjaldsvæði.

Frá laugunum eru margar skemmtilegar gönguleiðir og hægt er að finna eitthvað fyrir alla.

Kerlingarfjöll eru ein af náttúruperlum landsins. Þar fara saman stórkostlegt landslag, fjölbreytt og fróðleg jarðfræði og síðast en ekki síst samspil jökla og jarðhita, gróðurs og gróðurleysis og ótrúleg litadýrð. Öllu þessu gleymir enginn sem upplifir fagran dag í þessari einstöku náttúruperlu.

Hvítárvatn

Hvítárvatn er í Biskupstungahreppi í Árnessýslu. Það er 29,6 km², dýpst 84 m (meðaldýpi 28 m) og í 421 m hæð yfir sjó. Til þess falla Fróðá, Tjarnará, Svartá og Fúlakvísl, sem er jökulgormur.Frárennslið er Hvítá. Kjalvegur liggur sunnan og austan við vatnið. Við Hvítárvatn er einhver fegursta fjallasýn á landinu. Hólmavað er skammt neðan brúarinnar hjá Hvítárvatni.  Það hét áður Eyfirðingavað og sumir kölluðu það Skagfirðingavað.  Ferjustaður var ofan núverandi brúar.  Áin var fyrst brúuð 1935.  Þá var brúin af Soginu flutt og sett á Hvítá. Ekki er ljóst,hve mikill fiskur er í vatninu en þar er bleikja, 1-5 pund. Veiðihús er við Svartá og elsta sæluhús Ferðafélags Íslands er í Hvítárnesi við Tjarnará. Þar hafa sumir orðið fyrir aðsókn draugs að næturlagi, einkum í einni kojunni. Stangafjöldi er án takmarkana en veiðin er aðallega tekin í net.

Hagavatn

Hagavatn er talið hafa myndast eftir að hraun rann frá dyngjunni Lambahrauni fyrir um 3600 árum og stíflaði hvilft milli Hagafells og Brekknafjalla. Afrennsli þess var um lægsta skarð í Brekknafjöllum og um Farið til Sandvatns en töluvert vatn mun hafa hripað gegn um fjöllin og um hraunið vestan þess. Miklar breytingar hafa orðið á Hagavatni og nágrenni á síðustu öldum. Hagafellsjökull hefur ýmist hopað eða sótt fram og heimildir eru um fimm jökulhlaup úr vatninu sem hafa mótað umhverfið mikið.  Talið er að jökulhlaupin hafi átt sér stað árin 1708, 1884, 1902, 1929 og 1939 þar sem þau tvö síðastnefndu voru stærst. Sumarið 1929 hafði jökullinn hopað um rúma 600 m frá aldamótum og stórhlaup fékk framrás í hrikalegu Leynifossgljúfri í Brekknafjöllum vestan við höfðann Stemmi. Við hlaupið lækkaði vatnsborð um 6-7 m svo að það teygði sig ekki lengur vestur fyrir Hagafell. Fram undir 1950 náði Eystri Hagafellsjökull þvert yfir að Fagraskógarfjalli og stíflaði frárennsli uns hljóp úr vatninu 1939 um Nýjafoss úr suðausturhorni Hagavatns og þar fellur enn úr því. Vatnsborðið lækkaði um 10 m og Hagavatn minnkaði að flatarmáli um helming og olli nokkru tjóni, bæði á brúm og við árbakka. Flóðbylgjan barst til byggða í Hvítá og má enn sjá flóðmörk á Ölfusárbrúnni við Selfoss.  

Ferðafélags Íslands reisti gistiskála árið 1942 við Einifell, rétt austan við Farið við vestustu Jarlhettuna. Skálinn stendur í fallegum og nokkuð grónum fjallakrika. Margar skemmtilegar gönguslóðir eru um Jarlhettur, upp að Langjökli og að Hagafelli.