Hverabrauð nýtt í brennivín

g24121ps2.jpg

 

Sérstök rúgbrauðsútgáfa af íslensku brennivíni er nú á lokastigum þróunar og verður sett á markað í byrjun næsta árs. Fyrsta framleiðsla þessarar útgáfu er þegar uppseld þó að hún sé ekki enn komin í flöskur. Verður hún seld á veitingastöðum og til útlanda en talsverður áhugi hefur reynst á þessari nýjung þar.

„Þetta er mjög spennandi og ég held að þetta verði vinsælt hjá ferðamönnum. Bragðið af brennivíninu, einiber og kartöflur, fer vel með hverabrauðinu,“ segir Bjarki Hilmarsson, matreiðslumeistari á Hótel Geysi í Haukadal.

Við framleiðsluna er notað hverabrauð sem bakað er í jörð við Geysi. Brauðið er látið liggja í jörð, í holu Bergs frá Laug nánar tiltekið, í um sólarhring. Bjarki bitar svo brauðið niður og snöggsteikir á pönnu áður en það er lagt í brennivínstankinn þar sem brennivínið tekur úr því lit og bragð.

Valgeir Valgeirsson, bruggmeistari hjá Ölgerðinni, hefur þróað ýmsar nýjungar með íslenska brennivínið síðustu ár og þetta er sú nýjasta. Sérstök tunnuþroskuð jólaútgáfa kemur út hvert ár. Sú nýjasta er þroskuð á sérrítunnum. Hefur þessi tilraunastarfsemi leitt til þess að útflutningur á jólabrennivíni eykst ár frá ári og nemur nú nokkur þúsund flöskum.

„Þetta hefur gengið mjög vel og áhuginn er mikill erlendis. Mér skilst reyndar að stærstur hluti upplagsins fari í útflutning,“ segir Valgeir. Þetta jólabrennivín er mest flutt til Bandaríkjanna en einnig til Þýskalands og Færeyja.